Ferðasaga – gáttir Jemens og Jórdaníu.

Sálin var óvenju lengi á leiðinni…...ef hún er þá komin.

Eftir sólarhrings ferðalag lentum við í Sana´a, höfuðborg Jemens. Borgin liggur álíka hátt yfir sjávarmáli og Hvannadalshnjúkur og loft því frekar þunnt en ferskara en víðast annarsstaðar. Á leiðinni frá flugvellinum vissi ég að val á ferð hafi verið rétt. Ég myndi upplifa eitthvað nýtt og spennandi, það lá í loftinu. Öll skynjun á útopnu, lyktar og hljóðskyn, sjón og húðskyn og því lá beint við að svefnskynið ruglaðist aðeins þegar komið var á hotelið. Engin leið að sofna yfir geltandi hundum, sem geltu sín á milli en þó ekki í g-dúr og bænaturnanna sem voru óvenju hátt stilltir í höfuðborginni. Hér var engin miskunn sýnd, allir framúr og biðja.”Allah”, allt um kring.

Það var því heldur syfjaður ferðalangur sem mætti í skoðunarferð um gamla bæinn í Sana´a morguninn eftir. Sagt er að Sem, sonur Nóa hafi stofnað þessa borg og að arabísk þjóðarhyggja hafi orðið til þar. Hún stendur sem sagt uppi á hásléttu og var aldrei hertekin að fullu af Tyrkjum á tímum Ottomannaveldisins. Gamli bærinn sem er undir verndarvæng UNESCO hefur svo sérstakan byggingarstíl að ekkert er til samanburðar, en þar búa nú, ca.300 þúsund manns. Múrarnir umhverfis borgina voru reistir af bróðir Saladins sem vann Jerúsalem úr höndum krossfaranna.

Fljótt á litið líkjast húsin vel gerðum piparkökuhúsum eða hekleríi. Öll hús í Jemen eru gerð úr leir og steinum og eru því svo samlit náttúrunni að sagt er, að flugmenn sjái varla byggð þegar flogið er yfir landið. Til að persónugera húsin leggja þeir mikið upp úr skrautgluggum og hurðum. Alabaster var notað í gluggana áður en nú skrautgler. Gamla nafnið á Jemen er Arabia Felix, sem þýðir; hið glaða og gjöfula land.

Eftir skoðun í gamla bænum fórum við á markaðinn og fyrir utan allt sem markaðurinn hafði upp á að bjóða, sem var aðallega skartgripir úr silfri, “Jambia”, sem er hnífur sem þeir ganga með um sig miðjan, slæður, krydd, döðlur, kaffi og hunang þá mætti okkur skrýtin sjón. Upp úr kl.2 á daginn leggjast margir Jemenskir karlmenn í “quat”. Þetta eru fersk lauf, sem þeir tyggja og mynda svona sérdeilis stóran gúlp í annarri kinninni að ferðamenn missa hökuna aðeins niður af undrun. Þetta er létt dóp, sem líkist amfetamíni en bragðið er beiskt og þegar ég prófaði þetta seinna í ferðinni fóru munnvatnskyrtlarnir á fullt og gat ég varla hamið þennan græna vökva sem lak út úr munnvikjunum og skirpti þessu því snarast út og ákvað að bíða eftir glasi af Jameson þegar það gæfist !

Bílstjórarnir okkar í safaríferðunum tuggðu þetta sumir og gáfu þá skýringu að ef þeir gerðu þetta ekki, myndu þeir sofna undir stýri (vildum við það? ) og svo yrðu þeir svo graðir að konurnar kvörtuðu ekki! Jamm og já.

Daginn eftir lögðum við af stað í þriggja daga “safari” á 6 jeppum. “Toyota landcruiser” virtist vera eina tegundin í öllu landinu og við vorum í lögreglufylgd. Okkur var sagt að þetta væri heiður en í raun eru þeir að verja túristabransann, því það er ekki langt síðan að ferðamenn voru drepnir þarna af heitttrúuðum, úti í eyðimörkinni. Bílstjórarnir 6 voru hverjum öðrum skemmtilegri og hver með sín sérkenni. Það skapaðist fljótt góð stemmning innan hópsins og með þeim. Jóhanna er frábær fararstjóri ásamt þeim tveimur innfæddu sem við höfðum í ferðinni. Elísabet dóttir hennar, lífgaði líka upp á hópinn með ljóðalestri, stundum frumsömdum og tilfinningatorgi, sem hún opnaði bæði í Jemen og Jórdaníu. Svo lögðu allir eitthvað á vogarskálar til að krydda ferðina.


Leiðin lá beint til Taiz í miðhluta Jemen með viðkomu í Zafar, Ibb og Jibbla. Jibbla var áður höfuðborg og var dýrð hennar mest í tíð Örwu Akmedsdóttir, rúmlega þúsund e. Krist. Í stuttu máli, þá er fjölbreytilegt landslag /loftslag ,sérkennilegir húsakostir/þjóðhættir aðaleinkenni Jemens, ásamt einstakri gestrisni. Hvar sem við komum vorum við boðin velkomin og fólkið forvitið og fróðleiksfúst en því miður skorti mjög á enskukunnáttu innfæddra, sem okkur langaði oft að tala við.


Þó kom það fyrir að einn og einn fannst sem hægt var að spjalla við. Dæmi um gestrisni er, þegar við Inga vorum boðnar í ekta jemenskan hádegismat af manni sem var að gæta hotels í gömlu Sana´a og talaði ensku. Við vorum að leita að Nýlistasafninu og spurðum til vegar. Engu tauti við hann komandi um að þiggja ekki hádegisverðinn. Svo sagði hann að kl. 2 væri kominn quat-tími og við réðum því hvort við stöldruðum við og tyggðum það með honum eða hvort við héldum ferð okkar áfram. Svo var hann rokinn. Dæmi um veðurfar Einn daginn á leiðinni til Sana´a keyrðum við yfir eyðimörk og hitinn öðru hvoru megin við 40°, stuttu seinna lentum við í hörku rigningu og hagléli rétt á eftir. Líka þess vegna, geta bændur ræktað fjölbreytta fæðu, allt frá sætum berjum til beiskra kaffibauna og svo hefur hver dalur eða ættbálkur sinn eigin hnífadans !

Jemen er “rustique” land og ekki fyrir pempíur að heimsækja. Það kemur líka við kvikuna og var ferðalagið ekki síður heimsókn um eigin hugarlendur . Á þeim stöðum þar sem fátækt, eymd og stöðnun ríkti kom það við samviskuna, stundum pyngjuna og örlítið reiðina, vitandi það að forsetinn sem trónir á öllum veggjum nema á náðhúsum er einn af 8 ríkustu mönnum í Arabaheiminum og gerir fátt fyrir fólkið sitt. Annað en í Óman, að sögn Jóhönnu fararstjóra.

Skólaganga er skylda frá 7 til 16 ára en víða pottur brotinn úti á landi þar sem sagt er, að fyrsta orðið sem börn læra á ensku er “ a pen”, sem þau sníkja af túristum hvar sem þeir koma og þau voguðu, betla peninga. Það er þvílík barnamergð í Jemen og sennilega eina skemmtunin að gera do do, þar sem ekki er sjónvarp og svo má ekki gleyma hvað karlmenn verða graðir af quattinu sem þeir tyggja ! En þótt sum væru skítug og berfætt þá ríkti gleði í leik þeirra og örugglega ekkert barn á rítalíni.

Við keyrðum upp á tind Saberfjalls eftir hlykkjóttum vegum og sáum á leiðinni lítil þorp og litrík af fólki,en flest þorpin hanga utan í fjöllunum og þvílík elja hjá forfeðrum þeirra að byggja þetta allt með höndunum einum saman. Líka stallana í hlíðunum sem litu út eins og fíngerð ofið teppi. Jafnvel Íslendingar, góðu vanir, sögðu mörg “vá” yfir fjallasýninni og útsýninu, sem minnir á bergmál, þangað til síðasta fjallið í augsýn samlagast himinblámanum. Svo voru gróðursælir dalir með mango, bönunum, papayja og kaffi, sem hefur þó vikið fyrir quattinu þeirra, því líkt og í Afghanistan þá rækta fátækir bændur það sem þeir fá mest fyrir. Hver myndi ekki gera það ? Engar stjórnvaldsaðgerðir þar.

Í einu mynda- pissu og reyk stoppi kom að mér maður og fór mikinn og hafði jemenska gædinn sér við hlið, sem túlkaði þann mikla heiður sem hann var í þann mund að sýna mér……að bjóða mér til hádegisverðar. Hann var kynntur sem ættbálkahöfðinginn í dalnum og fannst það ekkert tiltökumál að ég snæddi með honum meðan aðrir í hópnum biðu. Ég þakkaði heiðurinn en ég yrði að halda áfram með minni hjörð. Kannski hefur ljóst hárið og rauða treyjan eitthvað hreyft við þessum gamla dalabúa, sem hefur líklega verið vanur að fá sínu fram, í krafti stöðu sinnar.


Næst lá leiðin til Hodeidah við Rauða hafið. Þar klístruðust fötin við okkur vegna raka en það leystist þegar fólk tók sér sundsprett frá bátunum og sumir tóku andköf af saltinu. Hodeidah er hafnarborg og þar er stærðarinnar fiskmarkaður sem við skoðuðum. Það var mikil reynsla að ganga þarna um í slíkum hávaða að minnti á brjálaða kauphöll í Tokyo eða New York. Menn næstum froðufelldu af æsingi og fiskiflóran skrautlegri en hér heima. Hákarlar og sverðfiskar og margir litríkir fiskar með göddum. Hitinn var kominn upp í 43°C og fólki lá við yfirliði af hita, lykt og hávaða.

Þarna voru með okkur í ferðinni, hjónin Helen og Baldvin Gíslason, sem höfðu unnið við þróunarhjálp í Hodeidah fyrir 30 árum og voru að koma aftur eftir allan þennan tíma. Þau sáu framfarirnar sem kannski vafðist fyrir okkur hinum.Hluti af starfinu var að kenna Jemenum að veiða og koma upp vísi af fiskmarkaði. Örugglega stór stund fyrir þau að sjá að vinna þeirra hafi borið árangur en húsið þeirra var horfið. Þetta var líka eini staðurinn á öllu ferðalaginu þar sem hægt var að fá sér “ aperitif “ og borðvín með matnum.


Annars lentum við oft í því að borða að hætti Bedúína, sitjandi á gólfinu og hver með sína vatnsflösku. Þessi kúnst er okkur framandi enda sást það á öllum tilburðum okkar, við vorum völt og sumir slengdu bífunum bara fram á milli rétta, sem þykir hinn mesti dónaskapur. T.d. í Thailandi þykir það hinn grófasti dónaskapur að sína fólki iljarnar !

Við flugum til Mukalla í suðaustri en bílstjórarnir höfðu keyrt 12 tíma á undan okkur. Leiðin lá yfir merkur og sanda til Sejun í Wadi Hawdramat sem er víðasti dalur í Jemen. Þar gistum við 2 nætur á hóteli, “Al Howta Palace “sem var eins og klippt út úr ævintýrum 1001 nætur. Lúxus og erotískt umhverfi fyrir fólk sem var þannig stemmt. Skoðuðum nánasta umhverfi, þar á meðal “Manhattan eyðumerkurinnar” , háhýsi í miðri eyðimörk og sem er líka á skrá hjá UNESCO en uppbygging gengur ekki eins hratt og væntingar stóðu til. Í alþjóðasamfélaginu hefur Jemenum verið hengt fyrir að hafa stutt Saddam Hussein, þegar hann réðist inn í Kuweit.

Við fórum til Marib um Safer, þar sem Sabaveldið stóð um aldir og skoðuðum í gegnum vírnet uppgröft af höll Bilquis, drottningarinnar af Sheeba (Saba). Skoðuðum sólar og tunglhofin, gamlar áveitur, býflugnabú (Acacia hunang) Acacia er trjátegund sem stendur meðfram þjóðvegum landsins. Vinnslu við kalksteina, sem brotna í sundur þegar vatni er hellt á þá. Sáum svartklæddar konur með andlitsskýlu og nornahatta úti á ökrum í lauktýnslu. Tvær konur úr hópnum höfðu áhuga á að eignast slíka hatta og björguðu bílstjórarnir því. Þessir hattar eru sagðir hafa betri loftræstingu en önnur höfuðföt og eru líka góð staðsetningartæki, þá sjást vinnukonurnar betur á ökrunum eða þær hvor aðra………………

Í einum dalnum komst sá kvittur á kreik að þar ríktu ættingjar hin eftirlýsta Bin Ladens, sem er að hálfu Jemeni og hálfu Saudi. Það fékkst ekki staðfest en hýbýli fólks í þessum dal voru óvenju vel úr garði gerð. Á leiðinni aftur til Sana´a stoppuðum við á frábærum útsýnisstað og Elísabet fór með frumsamið ljóð til bílstjóranna, sem Mohammed gæd þýddi jafnóðum á arabísku. “ You are the drivers of the universe………….”.


Daginn eftir var farið til Thula, Hababah, Sjibam og Kawkaban, allt bæir sem liggja norðvestur af Sana´a. Í Thula, sem er gamalt gyðingaþorp, hittum við Fatímu og hennar fjölskyldu, sem Jóhanna segir frá í bókinni “Arabíukonur” og stofnaður hefur verið styrktarsjóður henni til handa svo hún geti stundað framhaldsnám. Þar sáum við brúðgumagöngu, allavega voru þar eingöngu karlmenn ungir og gamlir og sumir með blómsveig á höfuðklútnum. Eitt af mörgum momentum í ferðinni, þar sem tilfinningin var að hafa ferðast aftur í tímann.Í Thula var sölufólk óvenju aðgangshart og ég var ekki að sleppa við einn sem vildi selja mér einn útsaumaðan dúk, sem hann sagði vera ekta jemenskan. Ég lét undan og einn bílstjóri með húmor batt hann umsvifalaust um höfuðið á mér og viti menn, ég hætti að svitna. Þessi dúkur var notaður sem höfuðfat það sem eftir var ferðar. Þar sannaðist það margkveðna; “ When you are in Rome, do like the Romans !”

Síðasta daginn var skoðunarferð til Wadi Dhar, þar sem höll síðasta imamsins stendur upp á ofurháum kletti. Sérkennilegur og sjarmerandi húsakostur. Þar á þakinu flutti Elísabet ljóð, “I feel the pain in the Yemenee people………” Á veitingahúsinu um kvöldið voru flestir lystarlausir og þeirri skýringu hent fram að það væri vegna söknuðar yfir að kveðja Jemen.


……………………………..


Við lentum seint um kvöld í Amman og þar beið okkar, hinn ungi og hressi fararstjóri, Sameed. Keyrðum beinustu leið til “Petra Palace”, rétt fyrir utan Petru. Um morguninn var eftirvænting mikil að skoða þessa rósrauðu borg, sem er jafngömul tímanum, þó kaupmenn við innganginn auglýsi frekar að þar hafi upptökur verið framdar á “Indiana Jones”.

Sumir gengu marglita sandsteinsgilið að aðalbyggingunni, sem nefnist “Fjárhirslan”, aðrir fóru á hestvagni, sem er ekki slæmur kostur því þá sér maður betur það sem fyrir augu ber. Dalurinn myndaðist við náttúruhamfarir fyrir milljónum ára og þá þeyttust roðalitaðar klettaslettur í loft upp og mynduðu umgjörð Petru. Borgin var týnd um aldir en þar byggðu fyrst Nepatear, um sjö hundruð f. Krist.
Sögumann skortir vitneskju um þau þjóðarbrot/ hirðingja sem höfðu aðsetur í þessari borg eftir þá, en veit að síðustu hirðingjunum var “hent út” um leið og Petra var gerð að túristastað. Ekillinn okkar var næstum jafn gamall tímanum, hafði alist upp á staðnum og líklega hugsað…….römm er sú taug……..um leið og hann kippti í tauminn á jafn gömlum hesti.Hann sönglaði eitthvað fallegt og þegar ég spurði hann hvort hann vildi syngja eitthvað af því sem Om Kaltum söng, þá táraðist hann.


Petra var mikil verslunarborg og var ein af eftirsóttum áningastöðum á Silkivegi sem lá frá Asíu. Í stuttu máli var heimsókn í Petru mögnuð reynsla og fyrir þá sem hafa t.d. reynt að blanda olíulitum á striga var hún enn magnaðri fyrir sína náttúrulegu litadýrð.. Flestir fengu sér úlfalda eða asna á heimleiðinni, enda farið að draga af fólki vegna hita og gangna.


Frá Petru var farið til hafnar og ferðamannaborgarinnar Aqaba og gist í 2 nætur. Flott hotel og meira að segja bar ! Fólk fór aftur í bátsferð, nú í Aqabaflóa sem endaði með strandi. Skipstjórinn stórslasaður af kórölum sem rifu hann þegar hann reyndi að ýta bátnum af þeim. Þessi bátsferð endaði með því að strandgæslan var kölluð til og ferðin endurgreidd.

Seinni daginn keyrðum við til Wadi Rum, á slóð Arabiu Lawrence ( þar sem hann vildi leggja járnbrautarteina og hugsaði stórt) Magnað tungllandslag og dulúðleg birta sem dansaði um fjöll og sandhóla. Um kvöldið áðum við í Bedúínatjaldi, þar sem var músik, dans og góður matur. Þar var manni ögrað að stíga arabískan dans með þar til gerðum töktum……”eplatýnslu” ,mjaðmahnykkjum og brjóstahristingi !


Fyrri lokakafli ferðarinnar var til Dauðahafsins, þar sem ekkert kvikt þrífst og sem er lægsti staður á jörðinni. Þar gistum við á Hótel Marriott, vestrænni lúxus en í Yemen en þvílíkur lúxus. Í Dauðahafinu flaut fólk eins og korktappar og þeir sem ekki nenntu að busla í söltu vatninu hlógu að hinum !

Fórum skoðunarferðir að helli Lots, þangað sem hann flúði með dætrum sínum eftir Sódóma/Gómorra og konan hans breyttist í saltstólpa. Fórum á Nebofjall, þar sem sagt er að Móses hafi horft yfir til fyrirheitna landsins og er grafinn. Í góðu skyggni sést yfir til Jerúsalem, Jerico og fleiri staða. Kvöldið áður þegar við hittumst í einu herberginu að fá okkur fordrykk, heyrðust skothvellir yfir hafið og Sameed gæd sagði eins og ekkert væri eðlilegra ; “ Þarna eru Ísraelsmenn að drepa Palestínumenn!” Hann taldi að ástandið myndi haldast óbreytt til lengri tíma vegna þess að arabar eru of sundraðir (ættarveldið enn of sterkt á kostnað nútíma þjóðarhyggju) til að eiga sjens í peningamaskínu gyðinga í Washington. Jamm og já.

Síðasti dagurinn fór í að skoða Jerash, borg frá tímum Rómverja, sem kölluð hefur verið brúður austursins. Minnti mig að mörgu leiti á Efhesus í Tyrklandi en þó ekki jafn langt komin í uppbyggingu. Kannski gat ég bara ekki innbyrgt meira en þessar rústir sitja ekki fast eftir í minninu. Þá var ekkert annað eftir en að fara á markaðinn í Amman og eyða síðustu ryölunum í kjóla og glingur. Sem sagt……..mögnuð ferð.


Erla Magnúsdóttir